Hvað felst í að koma á neyðarmóttöku?
Þú getur mætt beint á neyðarmóttökurnar en það er gott að hringja á undan svo að starfsfólk sé sem best undirbúið. Þú getur líka hringt í 112 og óskað eftir að koma í fylgd lögreglu.
Metið er hverju sinni í hverju þjónustan felst. Samvinna milli þín og starfsfólks neyðarmóttöku er höfð að leiðarljósi.
Þú mátt hafa með þér einn aðstandanda eða vin. Þau mega þó ekki vera viðstödd í viðtalinu né í skoðuninni.
Á neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis er boðið upp á:
- Viðtal við hjúkrunarfræðing.
- Læknisskoðun og meðferð eftir þörfum.
- Réttarlæknisfræðilega skoðun þar sem tekin eru sakargögn og áverkar metnir.
- Tilvísun til áfallateymis.
Þú þarft ekki að ákveða hvort þú viljir kæra brotið eða ekki þegar þú kemur á Neyðarmóttökuna. Það er alveg sama hvort þú mætir með lögreglu eða ekki, þú ræður ferðinni alveg.
Kvensjúkdómalæknir
- Í Reykjavík geturðu beðið um að fá kvenkyns kvensjúkdómalækni þegar þú hringir á undan.
- Á Akureyri sér kvensjúkdómalæknir á vakt um skoðunina.
- Á heilsugæslustöðvum er það ljósmóðir eða heilsugæslulæknir sem framkvæmir skoðunina.
Túlkur
Þegar þú hringir á móttökuna geturðu beðið um að fá túlk ef þig vantar.
Áfallateymi
Áfallateymið býður upp á aðstoð, fræðslu og ráðgjöf við úrvinnslu áfallsins. Þörf er metin fyrir frekari meðferð vegna andlegra eða líkamlegra viðbragða og unnið að styrkingu bjargráða og stuðningskerfa. Áfallateymi er opið fyrir alla þolendur, sama á hvað neyðarmóttöku er leitað.