Undirbúningur fyrir 15 ára og eldri
Réttargæslumaðurinn lætur foreldri þitt (eða forsjáraðila) vita hvenær þú átt að mæta og hjálpar ykkur.
Að mæta í héraðsdóm
Vitni mega ekki hlusta á þau sem sem segja frá á undan. Þess vegna þarftu að bíða fyrir utan dómsalinn þar til þér er vísað inn. Vanalega berð þú vitni á eftir gerandanum og öðrum þolendum.
Lokuð réttarhöld
Flest heimilisofbeldismál eru ekki opin almenningi. Það þýðir að enginn óviðkomandi málinu má sitja inni og fjölmiðlar fá ekki að fylgjast með.
Í dómsalnum
- Inni í dómsalnum eru dómari, saksóknari, verjandi gerandans, réttargæslumaðurinn þinn, aðrir þolendur ef þeir eru til staðar og svo gæti gerandinn verið viðstaddur líka.
- Til að styðja þig inni í dómsalnum er manneskja frá barnavernd sem þú hefur talað við og þekkir.
- Þegar komið er að þér að segja frá gengur þú inn í dómsalinn og sest í „vitnastúku“. Vitnastúka er bara sæti sem fólk sest í þegar það segir frá einhverju í dómsalnum.
- Yfirleitt eru dómsalir lítil herbergi. Þess vegna situr fólk nálægt hverju öðru. Gerandinn gæti því setið nokkrum metrum frá þér.
- Gerandi mega vera inni í salnum en oft fara þeir út þegar þolendur bera vitni.
Beiðni um að sakborningur fari úr dómsal
Það má biðja um að sá sem er ákærður verði ekki í dómsalnum á meðan þú berð vitni. Það er réttargæslumaðurinn þinn sem biður um það. Stundum samþykkir gerandi að fara út en ef hann gerir það ekki þarf dómarinn að ákveða hvort hann eigi að fara eða ekki.
Hverjir sitja hvar?
- Vinstra megin í dómsalnum situr saksóknari og réttargæslumaðurinn þinn.
- Hægra megin sitja gerandi og verjandi hans.
- Dómarinn er svo í miðjunni.
- Gott ráð er að horfa bara á dómarann og tala til hans, eða í þá átt sem saksóknari og réttargæslumaðurinn sitja til að fá styrk.