Vændi er þegar einhver borgar annarri manneskju fyrir að fullnægja sínum kynferðislegu hvötum. Greiðslan þarf ekki alltaf að vera með peningum, hún getur líka verið greiði eða gjöf.

Til að geta stundað kynlíf þurfa allir þátttakendur að veita samþykki fyrir því sem þar fer fram. Samþykki sem veitt er með skilyrðum eða eftir fortölur er ekki veitt af fúsum og frjálsum vilja. Greiðsla er skilyrt samþykki sem breytir valdajafnvægi milli einstaklinga. Ef einhver borgar þá vill hann að eitthvað sé gert fyrir sig og sá sem þiggur greiðsluna á oft ekki annarra kosta völ.

Hver sem greiðir eða heitir greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi skal sæta sektum eða fangelsi.

206. gr. alm. hegningarlaga 19/1940

Það er líka ólöglegt að hvetja aðra til vændis eða hafa tekjur af vændi annarra, til dæmis með útleigu á húsnæði eða öðru sem nýtt er fyrir vændið.

Nokkur hundruð kaupendur hafa verið ákærðir fyrir vændiskaup frá því lögin tóku gildi. Hefð hefur skapast um að nöfn ákærðu eru ekki birt með þeim dómum sem hafa fallið en sú stefna er í endurskoðun.

Þrátt fyrir þessa nafnleynd eru mörg dæmi um það hvernig upp hefur komist um vændiskaup hjá fólki, sem hefur í framhaldinu þurft að réttlæta ólögmæta hegðun sína fyrir sínum nánustu eða jafnvel vinnuveitendum.

Það er aftur á móti ekki ólöglegt að vera í vændi. Eina leiðin sem við höfum til að uppræta vændi er með því að stoppa þá sem kaupa vændi. Rannsóknir sýna að afleiðingar vændis eru miklar og langvinnar fyrir þau sem hafa verið í vændi. Sjálfsvígshugleiðingar, sjálfssköðun, einangrun og líkamlegir verkir eru jafnvel ennþá algengari en hjá þeim sem hafa orðið fyrir annars konar kynferðisofbeldi.

Þekkir þú birtingarmyndir ofbeldis?

Skoða fleiri dæmi
Manneskja horfir á símann sinn sem sýnir ólæsileg skilaboð. Hún snýr baki í okkur svo við sjáum á símann í höndunum á henni. Mikið liðað hár sveiflast í vindinum.

Stella

Stella hefur birt efni á OnlyFans í nokkrar vikur, er orðin ánægð með stílinn sinn og betri í að vinna efnið tæknilega. Hún er komin með yfir 100 áskrifendur þannig að tekjurnar eru orðnar þokkalegar. Stundum fær Stella fyrirspurn um að útbúa ákveðið efni, um daginn fékk hún beiðni um að taka myndband af sér að sleikja banana. Henni fannst það fyndið og lítið mál fyrir peninginn sem henni var boðinn svo hún gerði það og bætti meira að segja smá við með því að klæða bananann í smokk í lokin, eins og kennarinn gerði í kynfræðslu þegar hún var í 9. bekk.

Nú er þessi gaur búinn að senda aðra beiðni og vill að hún útbúi fyrir sig myndband þar sem hún sýnir hvernig hún notar banana eins og dildó til að fullnægja sér. Samt stendur í lýsingunni hjá henni að hún sýni ekki kynfæri í myndböndum sínum. Henni finnst það ekki spennandi en hann er að bjóða tvisvar sinnum meiri pening en síðast. Pening sem kæmi sér alveg vel að eiga.

Er þetta ofbeldi?

Ef þú hefur áhyggjur af þinni kynferðislegu hegðun, klám- eða vændisnotkun þá getur þú fengið hjálp við að breyta hegðun þinni.

Taktu skrefið

Taktu skrefið er hópur sálfræðinga sem aðstoðar fólk sem hefur áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni eða hefur beitt kynferðisofbeldi.

Sjúkt spjall

Nafnlaust netspjall fyrir ungmenni til að ræða áhyggjur af samböndum, samskiptum eða ofbeldi.

1717

1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins ef þú vilt tala við einhvern. Það er opið allan sólarhringinn. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Samþykki

Að gefa samþykki af frjálsum vilja er nauðsynlegt í kynlífi og kynferðislegum athöfnum. Annað er kynferðislegt ofbeldi.

Kynferðisofbeldi

Kynferðisofbeldi er það þegar einhver fær þig til að gera eitthvað kynferðislegt sem þú vilt ekki gera, káfar á þér eða áreitir þig á kynferðislegan hátt.

Manneskja heldur fyrir augun. Hún snýr að okkur og mikið liðað hár sveiflast til hægri í vindinum.