Góð ráð fyrir viðburðahaldara

Hér eru nokkur góð ráð varðandi öryggi á þeim viðburðum sem þið eruð að skipuleggja í sumar. Það er mikilvægt að tryggja að allir þátttakendur upplifi Góða skemmtun.

Samskipti við lögreglu og aðra viðbragðsaðila

Til að allt gangi vel fyrir sig þarf góð samskipti við lögreglu og aðra viðbragðsaðila. Látið vita af öllum áætlunum ykkar og fáið ráðleggingar um öryggisráðstafanir í samræmi við stærð og umfang viðburðarins. Tryggið ykkur nauðsynleg leyfi tímanlega.

Stýring á umferð

Ræðið tímanlega við viðbragðsaðila um skipulag og stýringu umferðar, s.s. tímabundnar akstursleiðir, umferðarmerki og lokanir vega. Tryggið að til staðar séu öruggar, skýrar og vel lýstar gönguleiðir. Hvetjið til notkunar almenningssamgangna, t.d. með því að koma upp sérstökum strætóleiðum eða stöðvum sem tengjast beint viðburðarsvæðinu.

Öryggisáætlun

Hafið öryggi gesta að leiðarljósi við skipulag viðburðarins. Miða skal við þær forsendur sem leiða má af umsókn um hátíðarhald, m.a. um áætlaðan fjölda gesta, staðsetningu viðburðarins, lengd hans, tímasetningu, samsetningu skemmtikrafta, aldursdreifingu þeirra gesta sem líklegastir eru til að sækja hátíðina o.s.frv. Gerið ítarlega öryggisáætlun fyrir viðburðinn. Það getur falið meðal annars í sér skilgreinda neyðarútganga, athvörf fyrir einstaklinga sem þurfa aðstoð og áætlun um viðbrögð við neyðartilvikum.

Öryggisgæsla

Tryggið nægilega öryggisgæslu á hátíðinni. Hafið vel merkt starfsfólk í öryggisgæslu staðsett við innganga og útganga og dreifið þeim um hátíðarsvæðið til að tryggja sýnileika og skjót viðbrögð.

Heilbrigðisþjónusta

Hafið samráð við ykkar heilbrigðisstofnanir til að tryggja að viðbúnaður sé nægilegur vegna slysa og óhappa, jafnt smáslysa sem alvarlegri slysa, þ.m.t. hvernig sjúkrabílar geta komist greiðlega að á sem skemmstum tíma. Aflið upplýsinga um hvernig á að kalla til bráðaþjónustu ef á þarf að halda og hafið þær upplýsingar aðgengilegar í öryggisáætlun og vel sýnilegar starfsfólki, sjálfboðaliðum og gestum.

Upplýsingar fyrir gesti

Látið gesti fá upplýsingar um helstu öryggisatriði, þar á meðal hvar þeir finna neyðarútganga, öryggisgæslu, og hvar aðstoð er í boði. Þetta má gera með skiltum, bæklingum eða upplýsingum á vefsíðu eða samfélagsmiðlum viðburðarins.

Áfengi og önnur vímuefni

Setjið strangar reglur varðandi áfengi og önnur vímuefni. Ef áfengi er selt á viðburðinum hafið þá eftirlit með aldri þeirra sem kaupa áfengi og takmarkið magn sem hver einstaklingur má kaupa. Hafið einnig viðbúnað til að bregðast við neyslu ólöglegra fíkniefna. Tryggið öryggi alla leið heim með því að fjalla um hversu langan tíma það tekur að ná áfengi úr blóði fyrir akstur og ræðið við lögregluna og viðbragðsaðila um hvernig sé best að hátta eftirliti með því að enginn setjist undir stýri undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.

Aðgengi og aðstaða

Tryggið að viðburðarsvæðið sé aðgengilegt fyrir öll, þar á meðal einstaklinga með hreyfihömlun. Hafið næga salernisaðstöðu og drykkjarvatn í boði. Skipuleggið tjaldsvæði með sem bestum hætti og sjáið til þess að götur og göngustígar séu greiðfærir fyrir sjúkraflutninga.

Þjálfun starfsfólks

Tryggið að allt starfsfólk og sjálfboðaliðar þekki öryggisáætlunina, fái viðeigandi þjálfun í öryggismálum og viti hvernig á að bregðast við neyðartilvikum.

Skýr samskipti

Setjið upp skýra leið til að eiga samskipti við gesti í gegnum hátalarakerfi eða aðra miðla til að veita þeim upplýsingar og leiðbeiningar um öryggismál.

Aðgerðir gegn þjófnaði

Hafið sýnilega öryggisgæslu á svæðum þar sem fólk safnast saman. Hvetjið þátttakendur til að geyma verðmæti á öruggum stað og nota læst hólf ef þau eru í boði. Setjið upp skilti sem vara við þjófum og hvetjið fólk til að tilkynna grunsamlega hegðun.

Aðgerðir gegn kynferðisbrotum og öðru ofbeldi

Útbúið athvarf þar sem fólk getur leitað aðstoðar ef það upplifir ógn eða óöryggi. Veitið starfsfólki og sjálfboðaliðum þjálfun í því að bera kennsl á og bregðast við kynferðisbrotum og líkamsárásum. Setjið upp bæklinga eða skilti með upplýsingum um hvernig á að tilkynna slíkt ofbeldi og við hvern á að hafa samband. Hvetjið gesti til að láta vita ef þeir verða fyrir áreiti eða ofbeldi og að öll séum við vakandi gagnvart þeim sem virða ekki mörk.

Öryggi á salernum

Tryggið að salerni séu vel lýst og reglulega hreinsuð. Hafið öryggisverði nálægt salernum til að tryggja öryggi og bregðast við neyðartilvikum. Hvetjið þátttakendur til að nota salerni í hópum, sérstaklega á kvöldin. Setjið upp skilti með neyðarnúmerum og leiðbeiningum um hvað á að gera ef einhver upplifir ógn eða hættu á salerninu.

Við vonum að þessar ráðleggingar hjálpi ykkur við skipulagningu Góðrar skemmtunar.

Ef þið hafið frekari spurningar eða þarfnist aðstoðar, ekki hika við að hafa samband við lögregluna.

Forvarnir gegn kynbundu ofbeldi

Það er upplifun okkar flestra að ef fólki líður vel og er fært í samskiptum þá muni það ekki beita ofbeldi. Það er að miklu leyti rétt en þó eru sumar tegundir ofbeldis sem hafa ávallt dulist betur og jafnvel verið samfélagslega samþykktar.

Slagsmál ungmenna

Gróf slagsmál og einelti hafa alvarlegar og ævilangar afleiðingar.

Kynferðisofbeldi

Kynferðisofbeldi er það þegar einhver fær þig til að gera eitthvað kynferðislegt sem þú vilt ekki gera, káfar á þér eða áreitir þig á kynferðislegan hátt.

Kynferðisleg áreitni

Þegar farið er yfir mörk á kynferðislegan hátt er það kynferðisleg áreitni.

Byrlun

Byrlun er þegar einhver gefur annarri manneskju lyf, áfengi eða vímuefni án hennar samþykkis eða vitundar.

Áhættuhegðun

Þegar barn hegðar sér á einhvern hátt sem skaðar eða er líklegt til að skaða heilsu þess og þroska kallast það áhættuhegðun. Til dæmis vímuefnaneysla, sjálfskaði, ofbeldi gagnvart öðrum og afbrot.

Góða skemmtun

Góða skemmtun er kveðja frá Neyðarlínunni með ósk um að landsmenn skemmti sér vel á viðburðum sumarsins.

Tjaldstæði á fallegu íslensku sumarkvöldi. Fjöll í baksýn. Fólk er að koma sér fyrir í tjöldum meðan aðrir eru að elda eða borða sitjandi á teppi. Búið er að kveikja upp varðeld og þar situr gítarleikari og syngur. Myndin er í lit nema einn aðili sem liggur í hengirúmi með öðrum hálf falinn. Er allt í góðu hjá þeim?