Meðferð málsins byrjar með þingfestingu
Þingfesting þýðir að ferli málsins hjá héraðsdómi er byrjað. Dómari ákveður stað og stund þar sem málið verður þingfest. Þú mátt búast við því að núna sé liðið eitt og hálft ár síðan brotið var á þér.
Ákærði þarf að mæta en ekki þú
Hinn ákærði, gerandinn, þarf að mæta og játa sök eða neita.
Þú þarft ekki að mæta í þingfestinguna. Réttargæslumaðurinn þinn er viðstaddur fyrir þína hönd. Hann lætur þig vita hvort sakborningurinn hafi játað eða neitað sök og hvenær aðalmeðferð mun fara fram.
Málið fær númer
Við þingfestinguna fær dómsmálið þitt númer. Númerið er hægt að nota til að fylgjast með málinu á vef héraðsdóms.
Gerandinn játar
Ef gerandi játar ákveður dómari refsingu fyrir hann. Þetta er oftast gert innan mánaðar frá þingfestingunni. Ef gerandinn játar þarft þú ekki að bera vitni fyrir dómi.
Gerandinn neitar
Ef gerandi neitar að hafa brotið á þér fer fram aðalmeðferð í málinu. Aðalmeðferð er það sem við köllum oft réttarhöld.