Nokkrar tegundir ofbeldis gegn hinsegin fólki
Heimilisofbeldi
Heimilisofbeldi er þegar sá sem beitir ofbeldinu er skyldur eða tengdur þér, til dæmis maki, fyrrverandi maki, fjölskyldumeðlimur eða umönnunaraðili. Heimilisofbeldi hefur margar birtingarmyndir og getur verið líkamlegt, andlegt, kynferðislegt, tilfinningalegt eða efnahagslegt.
Dæmi um hegðun sem getur flokkast sem heimilisofbeldi er þegar maki eða fjölskyldumeðlimur:
- Hótar þér, til dæmis með því að opinbera kynhneigð þína eða kynvitund áður en þú ert tilbúinn til þess á þínum forsendum.
- Niðurlægir þig eða gagnrýnir til þess eins að gera lítið úr þér.
- Reynir að stjórna þér og hvað þú mátt gera.
- Fylgist með ferðum þínum og reynir að takmarka samskipti þín við aðra.
- Hótar þér skaða eða því að aðilinn skaði sig ef þú hlýðir ekki.
- Beitir þig líkamlegu eða andlegu ofbeldi.
Oft reynir sá sem fremur ofbeldið að telja þér trú um að hinsegin fólk geti ekki orðið fyrir heimilisofbeldi eða að það sé engin hjálp að finna fyrir því. Það er alrangt. Allir geta orðið fyrir heimilisofbeldi og allir geta leitað sér hjálpar.
Kynferðisofbeldi
Kynferðisofbeldi er það þegar einhver fær þig til að gera eitthvað kynferðislegt sem þú vilt ekki gera, káfar á þér eða áreitir þig á kynferðislegan hátt. Lesa almennt um kynferðisofbeldi.
Hinsegin fólk er líklegra til að verða fyrir kynferðisofbeldi en aðrir og ofbeldið er oft réttlætt með vísun í kynhneigð og/eða kynvitund þess.
Dæmi um réttlætingu er þegar gerendur eða aðrir segja þér:
- að snertingar, kossar og kynferðislegt áreiti almennt sem þú verður fyrir sé ekki „alvöru áreiti“ vegna kyns þess sem fremur það og kynhneigðar/kynvitundar þinnar.
- að það að þú hafir komið fram sem hinsegin þýðir að þú viljir að fólk hagi sér kynferðislega með þér. „Þú baðst um það.“
- að þú þurftir á kynferðisofbeldi að halda til þess að „laga“ þig.
Hatursglæpir
Ofbeldi flokkast sem hatursglæpur þegar það er framið gegn fólki vegna kynþáttar, kynhneigðar, kynvitundar, litarhafts, fötlunar, trúar eða uppruna þess.
Dæmi um hatursglæpi:
- Líkamlegt ofbeldi, andlegt ofbeldi eða eignarspjöll sem þú verður fyrir vegna þess að þú ert hinsegin.
- Þegar einhver hæðist að þér eða kallar þig illum nöfnum vegna kynhneigðar eða kynvitundar þinnar.
- Hótanir og ógnandi hegðun, eins og til dæmis hótanir um að „laga“ þig eða opinbera kynvitund eða kynhneigð þína.
Trúarofbeldi
Trúarofbeldi er þegar ofbeldið er framið í nafni trúar eða trú notuð sem afsökun fyrir ofbeldi, hvort sem þú ert þeirrar trúar eða ekki.
Dæmi um trúarofbeldi:
- Þegar einstaklingur gerir lítið úr kynhneigð eða kynvitund þinni í nafni trúar.
- Notar trú til þess að afsaka ofbeldi gegn þér eða jafnvel kenna þér um að hafa orðið fyrir ofbeldinu.
- Reynir að þvinga þig til að aðlagast þeirra sýn á hvernig fólk á að vera. til dæmis með því að fara í umbreytingarmeðferð.
- Allar tegundir af heiðursofbeldi.
- Lesa meira um trúarofbeldi.