Jaðarsettur hópur

Hinsegin fólk er minnihlutahópur á Íslandi og minnihlutahópum er oft ýtt á jaðar samfélagsins. Þetta er kallað jaðarsetning. Jaðarsettir hópar þurfa oft að komast yfir hindranir sem aðrir hópar þurfa ekki að hugsa um.

Hindranirnar geta verið augljósar eða duldar og geta valdið því að erfiðara er fyrir hinsegin fólk að fá aðstoð, menntun, völd, upplýsingar og virðingu. Ofbeldi gegn hinsegin fólki tengist oft því að hópurinn er jaðarsettur.

Allir á Íslandi eiga og geta leitað sér hjálpar ef þau verða fyrir ofbeldi.

Enginn á skilið að verða fyrir ofbeldi.

Ótti við einangrun eða útskúfun

Það finnast enn fordómar í samfélaginu og það eru ekki allir jafn heppnir varðandi viðbrögð frá fjölskyldu, vinum og fólki almennt í nærumhverfi. Hræðsla við einangrun eða jafnvel útskúfun getur valdið því að hinsegin einstaklingur leiti sér ekki hjálpar af ótta við hvernig aðrir munu bregðast við.

Þessi hindrun getur vaxið ef að:

  • Einstaklingur hefur ekki komið fram opinberlega sem hinsegin.
  • Einstaklingurinn tilheyrir trúarlegu samfélagi.
  • Einstaklingurinn er í kúgandi heimilisumhverfi.

Mikilvægt er að muna að lögreglan, heilsugæslur, Landspítalinn og aðrir aðilar sem þú getur leitað til eru allir bundnir þagnarskyldu og þú getur farið til þeirra og fengið aðstoð.

Nokkrar tegundir ofbeldis gegn hinsegin fólki

Heimilisofbeldi

Heimilisofbeldi er þegar sá sem beitir ofbeldinu er skyldur eða tengdur þér, til dæmis maki, fyrrverandi maki, fjölskyldumeðlimur eða umönnunaraðili. Heimilisofbeldi hefur margar birtingarmyndir og getur verið líkamlegt, andlegt, kynferðislegt, tilfinningalegt eða efnahagslegt.

Dæmi um hegðun sem getur flokkast sem heimilisofbeldi er þegar maki eða fjölskyldumeðlimur:

  • Hótar þér, til dæmis með því að opinbera kynhneigð þína eða kynvitund áður en þú ert tilbúinn til þess á þínum forsendum.
  • Niðurlægir þig eða gagnrýnir til þess eins að gera lítið úr þér.
  • Reynir að stjórna þér og hvað þú mátt gera.
  • Fylgist með ferðum þínum og reynir að takmarka samskipti þín við aðra.
  • Hótar þér skaða eða því að aðilinn skaði sig ef þú hlýðir ekki.
  • Beitir þig líkamlegu eða andlegu ofbeldi.

Oft reynir sá sem fremur ofbeldið að telja þér trú um að hinsegin fólk geti ekki orðið fyrir heimilisofbeldi eða að það sé engin hjálp að finna fyrir því. Það er alrangt. Allir geta orðið fyrir heimilisofbeldi og allir geta leitað sér hjálpar.

Kynferðisofbeldi

Kynferðisofbeldi er það þegar einhver fær þig til að gera eitthvað kynferðislegt sem þú vilt ekki gera, káfar á þér eða áreitir þig á kynferðislegan hátt. Lesa almennt um kynferðisofbeldi.

Hinsegin fólk er líklegra til að verða fyrir kynferðisofbeldi en aðrir og ofbeldið er oft réttlætt með vísun í kynhneigð og/eða kynvitund þess.

Dæmi um réttlætingu er þegar gerendur eða aðrir segja þér:

  • að snertingar, kossar og kynferðislegt áreiti almennt sem þú verður fyrir sé ekki „alvöru áreiti“ vegna kyns þess sem fremur það og kynhneigðar/kynvitundar þinnar.
  • að það að þú hafir komið fram sem hinsegin þýðir að þú viljir að fólk hagi sér kynferðislega með þér. „Þú baðst um það.“
  • að þú þurftir á kynferðisofbeldi að halda til þess að „laga“ þig.

Hatursglæpir

Ofbeldi flokkast sem hatursglæpur þegar það er framið gegn fólki vegna kynþáttar, kynhneigðar, kynvitundar, litarhafts, fötlunar, trúar eða uppruna þess.

Dæmi um hatursglæpi:

  • Líkamlegt ofbeldi, andlegt ofbeldi eða eignarspjöll sem þú verður fyrir vegna þess að þú ert hinsegin.
  • Þegar einhver hæðist að þér eða kallar þig illum nöfnum vegna kynhneigðar eða kynvitundar þinnar.
  • Hótanir og ógnandi hegðun, eins og til dæmis hótanir um að „laga“ þig eða opinbera kynvitund eða kynhneigð þína.

Trúarofbeldi

Trúarofbeldi er þegar ofbeldið er framið í nafni trúar eða trú notuð sem afsökun fyrir ofbeldi, hvort sem þú ert þeirrar trúar eða ekki.

Dæmi um trúarofbeldi:

  • Þegar einstaklingur gerir lítið úr kynhneigð eða kynvitund þinni í nafni trúar.
  • Notar trú til þess að afsaka ofbeldi gegn þér eða jafnvel kenna þér um að hafa orðið fyrir ofbeldinu.
  • Reynir að þvinga þig til að aðlagast þeirra sýn á hvernig fólk á að vera. til dæmis með því að fara í umbreytingarmeðferð.
  • Allar tegundir af heiðursofbeldi.
  • Lesa meira um trúarofbeldi.

1717

1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins ef þú vilt tala við einhvern. Það er opið allan sólarhringinn. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð í Reykjavík veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Samtökin '78

Samtökin ’78

Samtökin 78 bjóða upp á ráðgjöf fyrir hinsegin fólk og ungmenni, meðal annars það sem hefur orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi.

Ofbeldi er alls konar

Það kallast ofbeldi í nánu sambandi eða heimilisofbeldi þegar sá sem beitir ofbeldinu er skyldur eða tengdur þér, til dæmis maki, fyrrverandi maki, fjölskyldumeðlimur eða umönnunaraðili. Ofbeldi getur átt sér stað óháð kyni, aldri, kynhneigð eða hverju öðru.

Manneskja í fjötrum. Hún er með lokuð augu og er leið á svipinn og heldur þétt utan um sig. Rauður þykkur borði er vafinn utan um hana.