Hvað eru fordómar?

  • Að dæma fyrir fram.
  • Að byggja álit og skoðanir á staðalmyndum.
  • Að dæma eftir uppruna, stéttum, þjóðerni, trúarbrögðum.
  • Fordómar byggja oft á ákveðinni vanþekkingu, ótta og óöryggi.
  • Skilja „okkur” frá „hinum“.
  • Fordómar geta leitt til ofbeldis og áreitni.

Öll á Íslandi eiga stjórnarskrárvarinn rétt gegn hvers konar mismunun.

Staðalmyndir

Með staðalmyndum er átt við að eitthvað sé alhæft um alla einstaklinga sem tilheyra ákveðnum hópi.

Staðalmyndir geta bæði verið jákvæðar og neikvæðar, stundum á sama tíma. Þær eru einfaldaðar og oft fordómafullar ímynd af hópi, oft byggðar á sögusögnum, fréttaflutningi og birtingamyndum.

Öráreitni

Hversdagslegir fordómar eða öráreitni er íslenska þýðingin á enska orðinu „microagression“. Það felur í sér dulda og lúmska mismunun eða fordóma sem beinast helst að jaðarsettum hópum.

Þetta eru atvik sem ein og sér virðast smávægileg en þegar fólk upplifir þau ítrekað, jafnvel oft á dag, verða áhrif og afleiðingar mun meiri.

Öráreitni getur birst í orðum, raddblæ, hunsun og viðmóti sem oft reynist erfitt að útskýra og greina nákvæmlega.

Dæmi fordóma sem birtast í öráreitni:

  • Gláp.
  • Kalla einhvern uppnefnum.
  • Tala niður til fólks.
  • Sýna vandlætingu með svip.
  • Nota orð eins og „gay" eða hommalegt um eitthvað neikvætt.
  • Gera ráð fyrir að foreldrar barns séu karl og kona.
  • Tala við manneskju eins og við barn.
  • Að þykjast ekki skilja einhvern.
  • Hækka röddina, til að einhver skilji betur íslensku.
  • Tala ensku við manneskju án þess að vita hvort hún talar íslensku.
  • Sýna vantraust eða tortryggni.
  • Sýna óþolinmæði.
  • Talar um einstakling við aðra, ekki við hann.

Rannsókn frá 2013 sýnir að fólk af erlendum uppruna lendir mikið oftar í svona atvikum en fólk af íslenskum uppruna.

Ofbeldi gegn innflytjendum

Fólk af erlendum uppruna er í meiri áhættu á að verða fyrir ofbeldi en fólk af íslenskum uppruna.

Tveir farsímar þar sem manneskjan í vinstri farsímanum teygir sig yfir til manneskjunnar í hægri farsímanum með regnhlíf. Rigningarský vomar yfir hægri farsímanum og manneskjunni þar sem er leið á svip.

Jaðarsettir hópar

Jaðarsetning á sér stað þegar manneskja eða hópur fólks á erfiðara með að gera ákveðna hluti í samfélaginu eða eiga erfiðara með aðgang að grunnþjónustu og öðrum tækifærum.

Innflytjendur

Íbúar á Íslandi sem eru fæddir erlendis, óháð ríkisborgararétti, kallast innflytjendur. Þetta hugtak nær líka yfir flóttafólk og fólk sem á erlent foreldri eða foreldra og „farandverkafólk“ (migrants) – verkafólk sem fer á milli staða þar sem vinna býðst.

14,6% íbúa á Íslandi árið 2022 voru erlendir ríkisborgarar.

20,5% íbúa í Reykjavík árið 2022 voru erlendir ríkisborgarar.

Flóttafólk

Flóttafólk er yfirhugtak sem nær til einstaklinga sem hafa fengið viðurkennda stöðu sem flóttafólk samkvæmt alþjóðlegum samningum.

Flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna og viðauki hans skilgreina og tryggja réttindi flóttafólks.

Lög um útlendinga nr. 80/2016 skilgreina flóttamann sem „útlending sem er utan heimalands síns eða ríkisfangslaus einstaklingur sem er utan þess lands þar sem hann hafði reglulegt aðsetur.“

Kvótaflóttafólk

Kvótaflóttafólk eru einstaklingar sem hafa fengið boð um að koma hingað til lands á vegum stjórnvalda.

Á síðustu árunum hafa íslensk stjórnvöld boðið kvótaflóttamönnum meðal annars frá Sýrlandi og Afganistan.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd (hælisleitendur)

Umsækjendur um alþjóðlega vernd eru einstaklingar sem koma hingað til lands á eigin vegum.

Málaflokkur umsækjenda um alþjóðlega vernd er á hendi Útlendingastofnunar sem annast umsóknirnar.

Dyflinnarreglugerðin: Hafi umsækjandi áður sótt um vernd í öðru ríki ber Íslandi ekki skylda til að taka málið til meðferðar og getur hafnað umsókninni á þeim grundvelli.

Hinsegin fólk

„Hinsegin“ er regnhlífarhugtak yfir allt fólk sem er ekki gagnkynhneigt eða fellur ekki inn í það sem telst hefðbundið kyn. Má þar nefna lesbíur, hommar, tvíkynhneigða, pankynhneigða, trans fólk, intersex, eikynhneigða og fleira.

Lögin standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi. Það þýðir að öll eigi fullkominn rétt til að ráða yfir eigin líkama og að borin sé virðing fyrir rétti allra til lífs, öryggis, frelsis og mannlegrar reisnar.