Samkomulag um ofbeldislausa og örugga skemmtistaði

Með samkomulaginu er stefnt á að fyrirbyggja allt mögulegt ofbeldi á skemmtistöðum. Ofbeldi eins og kynbundin og kynferðisleg áreitni, vændi og mansal, sem og ofbeldi sem byggist á fordómum eða hatri, svo sem í garð innflytjenda eða hinsegin fólks, er ekki liðið.

Fleiri sveitarfélög og lögregluembætti hafa unnið með skemmtistöðum og veitingastöðum á sínu svæði á svipaðan hátt.

Skemmtistaðir sem taka þátt í verkefninu eru merktir með þar til gerðu merki.

Stefna lögreglu

  • Lögreglan heldur úti sérstöku símanúmeri fyrir starfsfólk skemmtistaða á álagstímum til að koma upplýsingum áleiðis og leita aðstoðar. Þó skal alltaf hringja í 112 í neyðartilvikum.
  • Lögreglan stefnir á að vera ekki með lengri viðbragðstíma en 5 mínútur á álagstímum skemmtistaða.
  • Á hálfs árs fresti er haldinn fundur með forsvarsmönnum skemmtistaða og yfirdyravörðum ásamt starfsmanni Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis þar sem farið er yfir ofbeldisbrot á skemmtistöðum síðastliðna 6 mánuði.

Stefna Reykjavíkurborgar

  • Reykjavíkurborg setur upp og rekur, í samvinnu við lögreglu, eftirlitsmyndavélar í miðborginni og tryggir góða lýsingu þar sem þörf er á utandyra, byggt á ábendingum lögreglu og skemmtistaða.
  • Borgin afhendir merki til skemmtistaða sem sýnir að þeir hafa staðist kröfur sem settar eru á samkvæmt þessum samningi.
  • Borgin ber ábyrgð á netfanginu oryggi@reykjavik.is og kemur öllum ábendingum og fyrirspurnum í réttan farveg.

Stefna öruggra skemmtistaða

Öruggir skemmtistaðir:

  • Kalla til lögreglu ef upp kemur ofbeldisbrot, kynferðisbrot og varsla eða neysla ólöglegra vímuefna.
  • Sýna ekkert umburðarlyndi gagnvart ofbeldi og öllum mögulegum birtingarmyndum þess, þar með talið kynferðisbrot, kynbundið og kynferðislegt áreiti, sem og annað áreiti og ofbeldi sem byggist á fordómum eða hatri, til dæmis í garð innflytjenda eða hinsegin fólks.
  • Eru með markvisst, skipulagt og tímasett eftirlit með salernum, meðal annars til þess sporna við ofbeldisbrotum, kynferðisbrotum og vörslu eða neyslu ólöglegra fíkniefna.
  • Tryggja að dyr og læsingar að salernum séu með þeim hætti að dyraverðir og starfsfólk geti opnað dyr utan frá svo sporna megi við ofbeldis- og kynferðisbrotum.
  • Útbúa salerni þannig að ekki sé hægt að komast yfir eða undir skilrúm þeirra en að auðvelt sé að sjá hvort og hversu margir eru þar svo sporna megi við ofbeldis- og kynferðisbrotum.

Allt starfsfólk skemmtistaða á rétt á því að:

  • Starfa án þess að verða fyrir ofbeldi eða hótunum.
  • Starfa án þess að verða fyrir kynbundinni eða kynferðislegri áreitni.
  • Finna til öryggis í starfi.

Góða skemmtun

Neyðarlínan óskar landsmönnum góðrar skemmtunar hátíðum og efnir til átaks um árvekni um kynferðislega áreitni í samstarfi við Ríkislögreglustjóra og Dómsmálaráðuneytið.

Tónleikar þar sem hljómsveit stendur á sviði og er að spila. Ljóskastarar lýsa upp sviðið. Fyrir framan sviðið stendur hópur af fólki og nýtur tónlistarinnar. Myndin er í lit fyrir utan einn gest sem er greinilega að káfa á gestinum fyrir framan sig. Það er ekki góð skemmtun.

Tengt efni

Starfsfólk skemmtistaða

Starfsfólk skemmtistaða sem taka þátt í verkefninu „Öruggir skemmtistaðir“ skuldbindur sig til að tryggja öryggi gesta og starfsfólks.

Við erum öll með fordóma

Jaðarhópar eru hópar sem verða frekar fyrir fordómum í samfélaginu og lenda frekar í ofbeldi. Fordómar gera okkur líklegri til að beita annað fólk ofbeldi eða koma þeim ekki til hjálpar þegar þörf er á.