Hvernig er rannsakað?
Lögreglan safnar saman öllum gögnum sem hægt er að ná í. Markmiðið er að hafa nógu mikið af gögnum til að geta farið með málið fyrir héraðsdóm.
Til þess er meðal annars:
- Gerandinn kallaður í viðtal hjá lögreglunni sem heitir skýrslutaka.
- Vitni kölluð til skýrslutöku.
- Það sem þú sagðir um málið borið saman við það sem gerandinn segir og vitni.
- Skoðaðar upptökur úr eftirlitsmyndavélum.
Gögnum er safnað með leyfi frá foreldrum þínum (eða forsjáraðilum), til dæmis:
- Upplýsingar úr símanum þínum.
- Samskipti þín á samfélagsmiðlum.
- Vottorð frá læknum, sálfræðingum og öðrum sérfræðingum.
Hvar er málið rannsakað?
Lögreglan svæðinu þar sem brotið átti sér stað rannsakar málið. Stundum fær hún aðstoð frá lögreglu af stærri svæðum.
Brotið er flokkað
Fyrst er brotið flokkað samkvæmt skilgreiningum í lögunum. Það getur stundum hljómað öðruvísi en þú býst við því lögin nota oft önnur orð en fólk er vant að nota yfir kynferðisofbeldi.
Mikilvæg gögn um gerandann
Ef þú getur sagt um leið hver braut á þér reynir lögreglan að ná manneskjunni strax. Þannig er hægt að fá mikilvæg gögn. Ef brotið er gamalt er metið hvaða gögn er hægt að ná í, til dæmis af staðnum þar sem brotið var framið.
Ef gerandi er búsettur erlendis
Það er hægt að rannsaka kynferðisbrot þótt gerandinn sé bara tímabundið á Íslandi, til dæmis ef hann er ferðamaður.
Þú ættir ekki að láta það stoppa þig í að segja frá ef eitthvað hefur gerst. Best er að segja lögreglunni frá sem fyrst, svo hægt sé að finna þann sem braut á þér. Ef hann er farinn úr landi getur íslenska lögreglan oft unnið með lögreglunni í heimalandi hans til að leita að honum.