Afplánun gerenda
- Afplánunartími fyrir ofbeldi í nánu sambandi er misjafn en það fer eftir alvarleika brotsins.
- Fæstir afplána dóm að fullu.
- Dæmdur gerandi getur verið frjáls þar til afplánun hefst ef hann hefur ekki verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Það getur tekið tíma þar til hann fær pláss í fangelsi.
Þrepaskipt afplánun
Þegar einhver er dæmdur í fangelsi þýðir það ekki endilega að hann sé innilokaður í fangelsi allan tímann. Með góðri hegðun og þátttöku í meðferðum getur fangi fengið að afplána refsinguna með vægari öryggisreglum.
Þegar líður á afplánun gæti fangi fengið dagsleyfi úr fangelsinu, verið fluttur í opið fangelsi sem er ekki girt af, dvalið á áfangaheimili eða fengið ökklaband í rafrænu eftirliti.
Ef hinn dæmdi brýtur reglur á þeim stað sem hann er á er hægt að senda hann aftur í lokað fangelsi.
Af hverju þessi þrepaskipting?
Stefna Fangelsismálastofnunar er sú að refsingin felist í dómnum sjálfum, en tilgangur afplánunar er að endurhæfa einstaklinga og draga úr líkum á frekari brotum. Mikilvægt sé að hjálpa fólki að komast aftur út í samfélagið í stað þess að útskúfa því.
Stefnan byggir meðal annars á þeirri reynslu að það sé mjög erfitt að veita manneskju endurhæfingu í lokuðu fangelsi.
Lesa meira um afplánun.