Fleiri sem koma að málinu
Það er ekki bara barnavernd sem tekur við málinu þínu. Það eru líka lögreglan og lögfræðingur sem er kallaður réttargæslumaður. Allt þetta fólk er í samstarfi. Þau eru svo í sambandi við foreldra þína eða forsjáraðila um hvað gerist.
Barnahús
Viðtal
Til að komast að því sem hefur gerst talar manneskja við þig í Barnahúsi. Barnahús er bara venjulegt hús og herbergið lítur út eins og mörg önnur herbergi sem þú hefur komið í. Þið eruð bara tvö eða tvær að tala saman. Það sem þið segið er tekið upp og ef málið þitt fer fyrir dóm þá er upptakan spiluð í réttarsalnum. Það eru Barnahús á Akureyri og í Reykjavík. Ef þú býrð annars staðar kemur manneskjan frá Barnahúsi til þín.
Hjálp til að líða betur
Fólkið sem vinnur í Barnahúsi hjálpar þér að líða betur. Það er barnavernd sem biður um að þú fáir meðferð í Barnahúsi. Þá tala þú og foreldrar þínir við sálfræðing sem hefur mikla reynslu af því að hjálpa börnum.
Lögreglan
Hringt í lögreglu
Stundum veit lögreglan fyrst af brotinu. Kannski hefur einhver látið lögregluna vita. Kannski hringdi einhver og bað hana að koma strax því eitthvað var að. Lögreglan lætur alltaf barnavernd vita ef þau vita um börn sem líður illa eða eru í hættu.
Lögreglan rannsakar
Fólkið hjá lögreglunni safnar saman alls konar upplýsingum um það sem gerðist. Til dæmis tala þau við vitni ef það eru einhver, tala við þann sem braut á þér og fleira. Þau gera þetta til þess að það sé hægt að sanna það sem gerðist.
Réttargæslumaður
Það er lögfræðingur sem hjálpar þér og foreldrum þínum. Þið þurfið ekki að borga honum laun, heldur gerir ríkið það.