Hvað er vinnumansal?
Vinnumansal er þegar einhver, oftast vinnuveitandi, hagnast á vinnuframlagi annars. Starfsmaðurinn er þá blekktur til að taka við starfi gegn röngum upplýsingum, til dæmis um laun, vinnutíma, aðbúnað á vinnustað eða húsnæði. Gerendur nota blekkingar og hótanir til að koma í veg fyrir að þolandinn leiti sér aðstoðar eða hætti að vinna fyrir gerandann.
Vinnumansal er algengasta birtingarmynd mansals á Íslandi og getur átt sér stað hvar sem er. Oft gerist þetta við byggingaframkvæmdir, ræstingar og önnur þjónustustörf, eins og á hótelum og veitingastöðum. Það gæti verið vinnumansal ef:
- Yfirmaður lætur þig vinna mjög langa vinnudaga án þess að þú hafir val.
- Yfirmaður hótar að láta vísa þér úr landi ef þú gerir ekki það sem hann segir.
- Þú býrð í óviðunandi húsnæði með mörgum einstaklingum.
- Yfirmaður þinn hótar þér eða fjölskyldu þinni ofbeldi ef þú gerir ekki það sem hann segir.
- Þú færð ekki laun fyrir heimilisstörf eða önnur störf sem þú vinnur aukalega.
- Yfirmaður þinn setur staðsetningarforrit í símann þinn til að fylgjast með þér, gegn vilja þínum.