Það má selja vændi en ekki kaupa það
Á Ísland er ólöglegt að borga fyrir kynferðisþjónustu. Sá sem gerir það er í hættu á að fá sekt eða jafnvel fangelsisdóm allt að einu ári.
Hins vegar er ekki ólöglegt að fá borgað. Þótt það geti verið freistandi, ef fólk er í peningavandræðum til dæmis, getur það haft alvarlegar afleiðingar. Þeim sem borgar gæti fundist þau þar með hafa leyfi til að gera hvað sem er. Það er ekki rétt. Þó að þú hafir fengið einhverja greiðslu frá annarri manneskju þýðir það ekki að þú þurfir að gera allt sem hún vill.
Þó að einhver hafi borgað þá má alltaf segja nei.
Til að geta stundað kynlíf þurfa allir þátttakendur að veita samþykki fyrir því sem þar fer fram. Samþykki sem veitt er með skilyrðum eða eftir fortölur er ekki veitt af fúsum og frjálsum vilja. Greiðsla er skilyrt samþykki sem breytir valdajafnvægi milli einstaklinga. Ef einhver borgar þá vill hann að eitthvað sé gert fyrir sig og sá sem þiggur greiðsluna á oft ekki annarra kosta völ.
Þær athafnir sem fara fram í vændi krefjast þess að fólk sé í mjög nánum samskiptum, oft í mjög varnarlausri stöðu. Undir venjulegum kringumstæðum myndu slík samskipti bara fara fram á milli einstaklinga sem treysta hver öðrum vel. Þegar traust er ekki fyrir hendi, þegar annar aðilinn getur nýtt sér varnarleysi hins, til dæmis með því að fara fram á eitthvað sem ekki var um samið, getur það valdið miklum skaða hjá þeim sem finna sig í þeirri stöðu.
Fólk sem hefur verið í vændi lítur yfirleitt á það sem einhvers konar tímabundna ráðstöfun því það er í vandræðum. Fólk upplifir að það hafi ekki val um annað þó það myndi frekar vilja.
Rannsóknir sýna að afleiðingar vændis eru miklar og langvinnar fyrir þau sem hafa verið í vændi. Sjálfsvígshugleiðingar, sjálfsskaði, einangrun og líkamlegir verkir eru jafnvel enn algengari en hjá þeim sem hafa orðið fyrir annars konar kynferðisofbeldi.