Hvað eru ástarsvik og hverjir verða fyrir því?

Samfélagsmiðlar og stefnumótaforrit á borð við Facebook og Tinder geta einfaldað það að kynnast nýju fólki. Mikilvægt er að hafa í huga að þegar þú ert að tala við einstakling í gegnum internetið, þá þarf ekki að vera að hann sé sá sem hann segist vera.

  • Ástarsvik er þegar einhver myndar ástar- eða vinatengsl við þig til þess að geta stolið af þér pening eða persónuupplýsingum.
  • Ólíkt flestum svikum í gegnum internetið, þá er svikahrappurinn tilbúinn að eyða miklum tíma í að sannfæra þig um að treysta sér áður en hann biður þig um pening eða upplýsingar.
  • Allir geta lent í ástarsvikum en helstu fórnarlömbin eru karlmenn á sextugs- og sjötugsaldri.

Helstu einkenni ástarsvika

Hér eru nokkur grunsamleg atriði til að hafa í huga.

  • Einstaklingurinn er mjög fljótur að verða yfir sig ástfanginn af þér og játa ást sína ítrekað.
  • Einstaklingurinn vill strax færa samtalið af miðlinum sem þið kynntust á (eins og Facebook) yfir í SMS eða tölvupóstasamskipti, jafnvel símtöl.
  • Einstaklingurinn er of fullkominn, eins og hann hafi lesið þær upplýsingar sem þú hefur sett á internetið um þig og hvað þú ert að leita eftir í maka og er að nota þær frekar en að lýsa sér.
  • Einstaklinginn bráðvantar peninga til þess að leysa vandamál. Hann biður þig kannski ekki um þá beint strax, en ýjar að því þar til beiðnin kemur.
  • Einstaklingurinn er alltaf að fara að hitta þig en það kemur alltaf eitthvað upp á sem kemur í veg fyrir það.

Hvað getur þú gert?

Það er hægt að gera nokkra einfalda hluti til þess að minnka líkur á að svikahrappur reyni að blekkja þig og að þekkja svikahrappa frá öðrum.

  • Stilltu samfélagsmiðla þannig að aðeins vinir sjá hvað þú setur þar inn. Allt sem þar kemur fram auðveldar netsvikurum að vinna heimildavinnu um þig áður en látið er til skarar skríða.
  • Farðu rólega í samskiptum við nýtt fólk í gegnum internetið.
  • Staldraðu við ef eitthvað virðist vera óeðlilegt í samskiptum við fólk í gegnum netið.
  • Nýttu þér að þú getur bæði leitað eftir nöfnum og myndum. Þannig getur þú til dæmis séð hvort myndir sem einstaklingurinn er að nota séu notaðar á öðrum stöðum á netinu. Þetta er samt ekki alltaf nóg því svikarar geta búið til falska persónu á Internetinu.
  • Ekki senda neitt sem hægt er að nota gegn þér síðar, þar með talið fjárhagsupplýsingar eða myndir og myndbönd af þér sem þú vilt ekki að fari almennt á netið.
  • Vertu á varðbergi gagnvart greiðslubeiðnum, hvort sem um er að ræða millifærslur, áfyllingarkort eða annað.
  • Ekki fallast á gylliboð um skjótfenginn gróða, eins fjárfestingar eða tilboð um að fá greitt fyrir að millifæra pening fyrir einhvern annan.

Allir geta orðið fyrir netsvikum

Það er engin ástæða til þess að skammast sín fyrir að hafa lent í svikahröppum á netinu. Ekki hika við að leita þér hjálpar hjá bönkum, lögreglu og aðstandendum.

Hafðu í huga

Það er alltaf einhver tilbúinn að nýta sér aðstæður. Svikahrappar herja á fólk sem er einmana, einangrað eða þráir samskipti við nýtt fólk.

Ljósmyndir og myndbönd segja ekkert. Hver sem er getur safnað saman myndum af hverjum sem er og sett á internetið sem sínar eigin myndir. Með gervigreind getur líka hver sem er búið til myndir af fólki sem er ekki raunverulega til.

Aldrei samþykkja beiðni frá rafrænum skilríkjum nema þú hafir beðið um beiðnina. Ef svikahrappurinn veit símanúmerið þitt og kemst að því hjá hvaða banka þú ert getur hann reynt að skrá sig inn í heimabankann þinn í von um að þú samþykkir beiðnina frá rafrænu skilríkjunum.

Talaðu við fólkið í kringum þig. Stundum er auðvelt að gleyma sér þegar spennan við ný sambönd er í hæstu hæðum. Staldraðu við og ræddu við þá sem eru nánir þér um þetta nýja samband. Kannski gera þau sér grein fyrir einhverju sem þú tókst ekki eftir.

Hvað getur þú gert?

  • Ef þig grunar að sá sem þú ert að tala við sé ekki sá sem hann segist vera eða ef hann er farinn að biðja þig um pening, þá er einfaldast að hindra að hann geti haft frekari samskipti við þig. Þú getur „blokkað“ fólk á öllum miðlum.
  • Ef þú hefur sent pening hafðu þá strax samband við bankann þinn. Starfsfólk hjá öllum bönkum hefur reynslu og skilning á málinu og getur leiðbeint þér.
  • Ef einstaklingurinn er að reyna að kúga úr þér fé, til dæmis með því að hóta að senda vinum þínum efni sem þú hefur sent honum, hafðu samband við lögregluna.

Ofbeldi gegn eldra fólki

Rannsóknir sýna að eldra fólk er líklegra til að verða fyrir ofbeldi en yngra fólk.

Stafrænt ofbeldi

Stafrænt ofbeldi, eða netofbeldi, er það þegar einhver notar tæki eða tækni til að fylgjast með þér, ógna þér, áreita þig eða niðurlægja þig.

Manneskja horfir á símann sinn sem sýnir ólæsileg skilaboð. Hún snýr baki í okkur svo við sjáum á símann í höndunum á henni. Mikið liðað hár sveiflast í vindinum.