Sýknudómur
Ef gerandi er sýknaður, ekki dæmdur sekur fyrir brotið, þýðir það ekki að dómarinn trúi þér ekki. Það þýðir bara að það var ekki hægt að sanna án nokkurs vafa að brotið hafi átt sér stað.
Þegar dómur hefur fallið, hvort sem það var með sekt eða sýknu, geta alls konar tilfinningar komið upp.
Þessi síða er hluti af Leiðarvísi fyrir þolendur kynferðisbrota sem eru eldri en 18 ára.
Ef gerandi er sýknaður, ekki dæmdur sekur fyrir brotið, þýðir það ekki að dómarinn trúi þér ekki. Það þýðir bara að það var ekki hægt að sanna án nokkurs vafa að brotið hafi átt sér stað.
Ef gerandi er dæmdur sekur er hann sakfelldur. Dómari ákveður hversu lengi einstaklingurinn á að afplána. Lengd afplánunarinnar getur farið eftir ýmsum hlutum, meðal annars aldri, fyrri brotum og hversu líklegt sé að hann brjóti af sér aftur.
Þegar einhver er dæmdur í fangelsi þýðir það ekki alltaf að hann sé í innilokaður í fangelsi allan tímann. Ef fangi sýnir fram á góða hegðun og tekur þátt í meðferðum getur viðkomandi verið í afplánun með rýmri öryggisreglum.
Þegar líður á afplánun gæti hann fengið dagsleyfi frá fangelsi, fengið að afplána í opnu fangelsi sem er ekki girt af, farið á áfangaheimili eða fengið ökklaband í rafrænu eftirliti.
Ef hinn dæmdi brýtur reglur á þeim stað sem hann er á, er hægt að senda hann aftur til baka í lokað fangelsi.
Stefna Fangelsismálastofnunar er að refsingin fyrir brot sé dómurinn sjálfur en afplánunin á að endurhæfa fólk til að koma í veg fyrir að það brjóti af sér aftur. Þá þarf að koma fólki aftur út í samfélagið en ekki að útskúfa því.
Stefnan byggir meðal annars á þeirri reynslu að það sé mjög erfitt að veita manneskju endurhæfingu í lokuðu fangelsi.
Fangelsismálastofnun getur bannað geranda að hafa samband við brotaþola, til dæmis þegar hann fer í dagsleyfi, fer á áfangaheimili, fær ökklaband eða er veitt reynslulausn.
Ef hinn sakfelldi brýtur gegn þessum skilyrðum getur hann misst þessi úrræði, til dæmis verið sendur af áfangaheimili og aftur í fangelsi, misst heimild til að afplána með ökklaband og fleira.
Í vissum tilvikum er hægt að halda ástæðunni leyndri fyrir gerandanum en meginreglan er sú að hann á rétt á að vita af hverju ákvörðun um rafrænt eftirlit er afturkölluð eða hann sendur af Vernd, svo dæmi séu tekin.
Þú getur haft samband við Fangelsismálastofnun og fengið upplýsingar um afplánun þess sem braut á þér ef þú vilt. Fyrir suma er gott að vita hvar gerandinn er staddur í afplánuninni og ef það sé möguleiki á að rekast á hann úti í samfélaginu. Aðrir þolendur vilja ekkert hugsa út í það og það er líka allt í lagi.
Þó að máli þínu sé lokið í réttarkerfinu munt þú að öllum líkindum þurfa að eiga við afleiðingar þess í einhvern tíma. Kynntu þér úrræðin sem eru í boði.
Þegar málið hefur farið formlega leið í gegnum réttarkerfið átt þú rétt á að höfða einkamál gegn geranda til að fá miskabætur eða skaðabætur. Þolendur kynferðisbrota geta sótt um að fá gjafsókn í slíkum málum, það þýðir að þú þarft ekki að borga lögfræðikostnað.