Hjá héraðssaksóknara
Ef héraðssaksóknari metur það sem fram er komið í málinu vera nægilegt eða líklegt til þess að gerandi verði sakfelldur fyrir dómi á að gefa út ákæru á hendur honum. Ef gögnin eru ekki nægileg eða það er ekki líklegt að gerandi verði sakfelldur skal málið fellt niður.
Þegar ákveðið er hvort skuli gefa út ákæru eða ekki, þarf héraðssaksóknari að hafa í huga að það er ekki þolandanum í hag að halda áfram með mál þar sem vafi leikur á sakfellingu.
Einn héraðssaksóknari en átta dómstólar
Héraðssaksóknari sækir mál fyrir allt landið. Héraðsdómarnir aftur á móti eru á átta mismunandi svæðum. Yfirleitt er málið til umfjöllunar þar sem gerandi á heima. Stundum er málið til meðferðar í héraðsdómi þar sem brotið átti sér stað.
Ef héraðssaksóknari gefur út ákæru
Hvað er ákært fyrir?
Það getur komið þér á óvart hvað héraðssaksóknari ákveður að ákæra gerandann fyrir. Það fer eftir lagaákvæðum hvað er ákært fyrir og hvað hann telur hægt að færa sönnur á fyrir dómi.
Sakborningur verður ákærði
Gerandi er kallaður „sakborningur“ frá upphafi rannsóknar, en hann kallast „ákærði“ ef málið fer fyrir dóm.
Ef héraðssaksóknari fellir málið niður
Ef málið þitt nær ekki lengra í kerfinu þýðir það alls ekki að ofbeldið hafi ekki átt sér stað - alls ekki. Helsta hlutverk réttarkerfisins, lögreglu og dómstóla, er að horfa blákalt á gögn í sakamálum. Þessar stofnanir mega í lang flestum tilvikum einfaldlega ekki túlka atvik máls út frá neinu öðru.
Niðurfelling kærð til ríkissaksóknara
Niðurfellingu málsins, hvort sem er hjá lögreglu eða héraðssaksóknara, má kæra til ríkissaksóknara. Þá er farið aftur yfir gögn málsins af ákæranda hjá ríkissaksóknara.
Ef til þess kemur, aðstoðar réttargæslumaðurinn þig við næstu skref. Þá er farið aftur yfir gögn málsins af ákæranda hjá ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari getur annað hvort fellt ákvörðun úr gildi eða staðfest ákvörðun.