Þegar við upplifum okkur í hættu taka sjálfvirk og ómeðvituð varnarviðbrögð líkamans stjórnina. Viðbrögðin eru annað hvort að berjast eða flýja.
Hvað gerist í heilanum?
Reykskynjararnir fara í gang
Í heilanum eru tveir staðir sem sjá um að skynja hættu og undirbúa líkamann fyrir að berjast eða flýja burt frá hættunni. Þessir staðir kallast möndlur og þeim má líkja við tvo reykskynjara sem pípa þegar þeir skynja reyk og láta þannig vita að hætta sé á ferð.
Öll kerfin verða virk
Þegar reykskynjararnir fara í gang losna stresshormón út í líkamann til að undirbúa hann fyrir að takast á við þessa hættu. Líkamleg viðbrögð eru til dæmis grynnri og hraðari öndun, sveittir lófar og hraðari hjartsláttur. Blóðið streymir út í útlimi og við finnum meira fyrir þeim: röddin breytist, hálsinn þrengist, hnakkinn og kjálkinn verða stífir og sumir roðna í framan.
Hæfni til að taka góðar ákvarðanir minnkar
Í þessu ástandi lokast fyrir taugabrautir sem sjá um að taka flóknar ákvarðanir. Við hættum að geta séð hluti frá mörgum hliðum, beitt rökum og tekið yfirvegaðar ákvarðanir. Minnið bregst okkur líka og við hættum að geta kallað fram minningar sem hjálpa okkur að róa okkur niður.
Ekkert kemst að nema hávaðinn í reykskynjurunum. Sjálfvirku varnarviðbrögðin í taugakerfinu taka yfir og segja okkur að við séum í hættu.