Lausn vandamála

Allir lenda í erfiðleikum og vandræðum sem þarf að leysa. Stór og mikil vandamál sem eru óleyst lengi geta haft neikvæð áhrif andlega og líkamlega. Það er því mikilvæg færni að geta komið auga á vandamál og geta leyst það.

Til að vinna úr vandamálum er gott að:

  • Æfa sig í að koma vandamálum í orð: „Vandamálið er að ...“
  • Hugsa hvort vandamál sé kannski bara einkenni af öðru vandamáli.
  • Finna rót vandans og geta greint á milli orsaka og einkenna.
  • Ein leið til að komast hratt að rótinni er að spyrja aftur og aftur: „Af hverju?“

Þegar ljóst er hvert raunverulega vandamálið er eru næstu skref oft að:

  • Brjóta stór vandamál niður í minni hluta.
  • Finna alls konar mögulegar lausnir.
  • Velja bestu lausnina.
  • Framkvæma.

Gagnrýnin hugsun

Gagnrýnin hugsun er hæfnin til að hugsa rökrétt um það sem þú sérð, heyrir og lendir í. Gagnrýnin hugsun hjálpar til við að aðgreina staðreyndir frá tilfinningum og öðrum þáttum sem hafa áhrif á skoðanir og hegðun.

Fólk með gagnrýna hugsun:

  • Trúir ekki neinu í blindni.
  • Byggir skoðanir sínar á staðreyndum.
  • Sér oftast margar hliðar á öllum málum.
  • Er færara í að taka góðar ákvarðanir.
  • Stjórnast meira af eigin gildum heldur en af til dæmis hópþrýstingi eða umfjöllun í fjölmiðlum.

Árangursrík samskipti

Hæfni í samskiptum, bæði í orðum og án orða, er mjög mikilvæg í daglegu lífi. Þessi hæfni hjálpar að tjá þarfir, skoðanir og tilfinningar á viðeigandi hátt miðað við aðstæður hverju sinni.

Samskiptahæfni:

  • Styrkir sambönd við aðra.
  • Eykur sjálfstraust.
  • Auðveldar það að taka þátt í samfélaginu.

Til að æfa samskiptahæfni er mikilvægt að æfa virka hlustun.

Virk hlustun þýðir að hlusta til að reyna að skilja, ekki bara til að svara

Ákvörðunartaka

Stór hluti þess að taka ábyrgð á eigin lífi byggist á hæfninni til að taka ákvarðanir.

Á hverjum degi þarf að velja milli mismunandi möguleika. Stundum eru þetta litlar ákvarðanir sem skipta litlu máli en á lífsleiðinni þarf líka að taka margar mikilvægar ákvarðanir.

Áður en mikilvæg ákvörðun er tekin er gott að gera eftirfarandi:

  • Vera viss hvert markmiðið er eða vandamálið sem ákvörðunin á að leysa.
  • Safna gögnum eða upplýsingum um málið.
  • Finna út hvaða möguleikar eru í stöðunni.
  • Meta kosti og galla hvers möguleika - hvað er fengið og hvað tapast? Gott er að leita ráða hjá fólki sem hefur meiri þekkingu.
  • Taka ákvörðunina.

Aðeins tíminn leiðir í ljós hvort ákvörðunin var góð eða slæm. Það er ekki hægt að taka bara góðar ákvarðanir í lífinu, sumar ákvarðanir þarf til dæmis að taka hratt sem gefur minni tíma til að afla upplýsinga. Ef ákvörðunin reynist á endanum ekki góð er mikilvægt að læra af henni og reyna að gera betur næst.

Skapandi hugsun

Skapandi hugsunarháttur felur í sér að skoða nýjar hugmyndir og aðferðir til að gera hlutina eða leysa vandamálin sem við lendum í.

Leiðir til að æfa skapandi hugsun eru til dæmis:

  • Koma með eins margar hugmyndir og hægt er á skömmum tíma. Stilla tímann og keppast við magn umfram gæði. Hægt er að skrifa hugmyndirnar niður með stuttum texta, stikkorðum eða einföldum skissum.
  • Hugsa hlutina frá öðrum sjónarhornum. Æfa sig til dæmis með því að færa rök bæði með og á móti einhverju eða hugsa hlutina frá sjónarhóli allra aðila sem málið snertir.
  • Losa um allar hömlur og hugsa til dæmis: „Ef svín gætu flogið og allt væri mögulegt, hvernig myndi ég þá leysa þetta vandamál?"
  • Byggja á hugmyndum annarra. Skoða hvað er til nú þegar eða hlusta á hugmyndir annarra og segja alltaf „já og svo gætum við bætt við það með því að …”
Manneskja krýpur við glugga og vökvar plöntu. Úti er bjartur dagur.

Samkennd

Samkennd er hæfnin til að setja sig í spor annarra. Samkennd felur í sér að dæma ekki aðra út frá eigin lífi og reynslu heldur reyna að átta sig á þeirra þörfum og tilfinningum.

Lífið færir manni alls kyns verkefni og fólk sem maður þurfum að eiga í samskiptum við, oft fólk sem mjög ólíkt manni og hefur aðrar skoðanir og gildi. Því fylgja stundum erfið samskipti og ágreiningur sem mikilvægt er að leysa á jákvæðan hátt. Samkennd spilar þar lykilhlutverk.

Samkennd gerir mann færari í að byggja upp góð sambönd við aðrar manneskjur og samfélagið í heild.

Færni í mannlegum samskiptum

Það er hæfileiki að ná að byggja upp og viðhalda jákvæðum samböndum við annað fólk. Það hefur mikil áhrif á andlega líðan.

Það er einnig mikilvægt að æfa sig í að setja öðrum mörk og binda enda á sambönd sem eru ekki góð fyrir okkur.

Samkennd með öðrum er grundvöllur að færni í mannlegum samskiptum sem hjálpar manni að eiga góð samskipti við annað fólk, bæði í einkalífi og í vinnu. Þessi færni hjálpar manni að búa í sátt og samlyndi við annað fólk, vinna í teymum, hafa áhrif á aðra, geta stjórnað erfiðum samtölum og byggt upp samningatækni.

Uppbygging sjálfsvitundar

Það kallast sjálfsvitund að þekkja sjálfan sig vel. Með því er átt við að þekkja styrkleika sína og veikleika, vita hvað manni langar og hvað maður óttast. Sjálfsvitund felur einnig í sér að vita hver áhugamál manns eru, hvernig manni líður og hvað skiptir máli í lífinu.

Að þekkja sjálfan sig vel hjálpar til að átta sig á þegar maður er undir álagi eða líður illa. Að geta sýnt sjálfum sér mildi við slíkar aðstæður er grundvöllur þess að geta sýnt öðrum samkennd.

Að takast á við streitu

Rannsóknir hafa sýnt fram á að streita er grunnurinn að mörgum líkamlegum og andlegum sjúkdómum. Ranghugmyndir spila oft stórt hlutverk. Niðurbrjótandi hugsanir eins og „ég mun aldrei geta þetta” eða „engum líkar við mig” eru oft fljótar að taka yfir þegar maður mætir áskorunum í lífinu.

Að læra heilsusamlegar leiðir til að fást við álag og streitu hefur mikið að segja í að minnka líkur á líkamlegum og andlegum veikindum.

Núvitund er öflug leið til að minnka streitu og áhyggjur. Hún felur í sér að kenna huganum að halda sig í núinu, því sem er að gerast núna á þessu augnabliki.

  • Það er oft seint að breyta því sem gerðist í gær.
  • Enginn veit hvað morgundagurinn mun færa manni. Það hjálpar því lítið að hafa áhyggjur af því í dag.

Núna er eini tíminn sem við höfum til að breyta og stjórna hverju sinni.

Að takast á við erfiðar tilfinningar

Tilfinningar okkar eru góður mælikvarði á líðan.

  • Jákvæðar hugsanir leiða af sér jákvæðar tilfinningar eins og gleði, sátt, umhyggju og innri ró.
  • Neikvæðar hugsanir leiða af sér neikvæðar tilfinningar eins og reiði, kvíða, þunglyndi og hræðslu.

Það er hægt að æfa sig í að hugsa jákvætt. Jákvætt sjálfstal er öflug æfing sem þjálfar mann í að hugsa jákvætt.

Það getur breytt líðan manns og hjálpað manni að takast á við erfiðar tilfinningar eins og mótlæti, höfnun eða vonbrigði.

Tilfinningastjórnun er mikilvæg færni sem nýtist alla ævi. Börn missa oft stjórn á skapi sínu og ráða ekki við tilfinningar sínar, bæði jákvæðar og neikvæðar. Með æfingunni læra þau að stjórna tilfinningum sínum og samhliða auknum framheilaþroska verða þau færari í að takast á við þær.

  • Góð tilfinningastjórnun hjálpar til við tengslamyndun við annað fólk, bæði í einkalífi og í vinnu. Hún hjálpar okkur einnig að fást við mótlæti og að lifa hamingjusamara lífi.
  • Léleg tilfinningastjórnun getur haft neikvæð áhrif á sambönd okkar og leitt til geðheilsuvandamála og ofbeldis.

Fyrsta skrefið í tilfinningastjórnun er að geta nefnt tilfinninguna.

  • Ég finn fyrir reiði
  • Ég finn fyrir kvíða
  • Ég finn fyrir hræðslu

Næsta skref er að bregðast við henni á meðvitaðan hátt, eins og til dæmis með:

  • Hreyfingu, að fara í göngutúr og hreinsa hugann.
  • Truflun, beina athyglinni annað til að forðast að segja eða gera hluti sem maður mun svo sjá eftir.
  • Tjáningu, eins og að tala við einhvern sem maður treystir eða skrifa dagbók.
  • Jákvæðu sjálfstali, eins og endurteknum jákvæðar staðfestingum til að byggja upp sjálfstraust.

Byggt á lista sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) gaf út um hæfileika sem hjálpa fólki að fást við kröfur og áskoranir lífsins á árangursríkan hátt.

Sjálfstjórn í erfiðum aðstæðum

Það er hægt að æfa sig í að missa ekki stjórn á skapinu þó aðstæður séu ógnandi. Þetta hjálpar til við að komast hjá slagsmálum og tryggja eigið öryggi.