Neyðarlínan heldur merkjum 112 á lofti þann 11.febrúar ár hvert, af því dagsetningin 11.2. minnir okkur á neyðarnúmer allra landsmanna, 112. Það er mikilvægt að minna á þetta númer - af því þetta er eina númerið sem landsmenn þurfa að þekkja í neyð.
Þema 112 dagsins að þessu sinni er öryggi á vatni og sjó og miðar að því að vekja fólk til vitundar um öryggi í og við vötn: í sundlaugum, náttúrubaðstöðum, við sjósundstaði, við hafnarveiðar og á sjó. Viðbragðsaðilar víðsvegar um landið taka þátt í 112 deginum í sinni heimabyggð. Á höfuðborgarsvæðinu verður dagurinn haldinn hátíðlegur í Sjóminjasafninu, Granda og er allt svæðið í kring sömuleiðis virkjað í tilefni dagsins. Nánar má lesa um dagskrá dagsins hér fyrir neðan.
Dagur íslenska táknmálsins er einnig haldinn hátíðlegur þann 11.febrúar ár hvert og verður dagskráin kl.13-14 túlkuð á táknmáli.